Lafite

Lafite – Rothchild og Nicolas Catena

Það eru allmörg dæmi um það í gegnum tíðina að nafntogaðar og víðkunnar víngerðir hafa leitað út fyrir sitt upprunalega víngerðarsvæði, ef svo má segja, og farið í landvinninga en um leið flutt með sér orðstír og þekkingu sem hefur að jafnaði nýst þeim vel. Þannig hafa víngerðir í Bourgogne og Champagne hleypt heimdraganum og farið út í að rækta Pint Noir og Syrah í Languedoc, alþekkt vínhús í Bordeaux hafa gert vín á Spáni og Portúgal í samstarfi við heimamenn og jafnvel haldið í aðrar heimsálfur þar sem aðstæður eru aðrar og jafnvel betri til að gera vínin sem þá hefur alltaf dreymt um.

Þannig er það með Lafite-Rothchild-famílíuna í Bordeaux sem á sínum tíma hélt til Suður-Ameríku (Mouton-Rothchild-ættarveldið hafði þá meðal annars hafið samstarf við Robert Mondavi í Kaliforníu) og fann þar bæði framúrskarandi víngarða og frábæra víngerð og afraksturinn var Caro í samstarfi við Nicolas Catena og fjölskyldu hans, enda er nafnið „Caro“ fyrrihlutinn á nöfnum fjölskyldanna Catena og Rothchild. Sjálft vínið Caro er reyndar framleitt í afar takmörkuðu magni og kostar alveg slatta af pening en við erum svo heppin að hafa fengið til landsins „litla“ vínið frá Caro, Petit Caro, sem er, þrátt fyrir nafnið, engin smásmíði og hefði í nánast öllum tilfellum geta verið fyrsta og besta vín hvers einasta vínhúss.

Ástæðan fyrir því að Lafite-Rothchild ákvað að gera vín í Argentínu eru hin einstöku skilyrði sem þrúgur hafa, sérstaklega á hálendinu í kringum Andesfjöllin og þá einkanlega Mendoza en réttur jarðvegur, mikið sólskin og talverðar hitasveiflur milli dags og nætur tryggja einstaklega gott hráefni. Svo má heldur ekki gleyma því að lóða- og fasteignaverð í Mendoza er heldur skárra en í Médoc-sýslunni í Bordeaux. Í öllu falli er útkoman frábær fyrir neytendur.