L. Bernard Pitois

L. Bernard-Pitois er ekki heimsfrægur kampavínsframleiðandi og vínin hans blasa hvorki við í stórmörkuðum né fríhöfnum þessa heims, sem eru í gíslingu iðnaðarframleiðslunnar og hafa engan áhuga á smáum gæðaframleiðendum. Þetta litla fjölskyldufyrirtæki hóf að gera kampavín árið 1878 og í dag eru það Michelle og Laurent Bénard-Louise sem halda utan um víngerðina í Mareuil-sur-Aÿ. Það eru svo eingöngu um níu og hálfur hektari sem þau eiga á Grand- og Premier Cru ekrum í nágrenninu sem gefa af sér þessi merkilega góðu vín.
Rétt einsog hjá flestum víngerðum í Champagne er megnið af framleiðslunni án árgangs og blandað að mestu úr einum eða tveimur mismunandi árgöngum af hvítvíni með dassi af eldri árgöngum til að auka flækjustigið. Carte Blance er að lang stærstum hluta úr Pinot Noir, eða 75% alls, en afgangurinn er úr Chardonnay (20%) og Pinot Meunier. Þeir sem eitthvað þekkja til kampavína gera sér þá vitanlega grein fyrir að kampavín með svona hátt hlutfall af Pinot Noir eru kröftug, karlmannleg og fara vel með matnum. Hver einstakur akur er gerjaður og þroskaður á sinn hátt og sumt af víninu fer í notaðar eikartunnur til að auka á flækjuna.